Fyrsta nóttin á nýju heimili, frá móður sinni og systkinum er erfið fyrir lítinn hvolp. Ekki ætti að loka hvolpinn einan inni, og ætti hann alls ekki að sofa einn fyrstu næturnar á nýja heimilinu.Hundar eru félagsverur, hvolpurinn hefur nýlega yfirgefið móður sína og systkini, hann getur verið órólegur og einmana fyrstu nóttina/næturnar. Ef þú tekur hvolpinn upp í rúm til þín, gæti það færst í vana og endað með því að hann sefur þar í framtíðinni. Sniðugt er að hafa bæli hvolpsins við hlið rúmsins þíns, þá getur þú gælt við hvolpinn og haft aðra höndina lafandi út fyrir rúmstokkinn hjá honum svo hann verði öruggari. Einnig er gott ráð að setja hitapoka vafinn í handklæði í bæli hvolpsins, sem líkir þá eftir hita og hlýju systkina hans og móður, jafnvel að pakka inn í handklæði tikkandi vekjaraklukku sem hljómar líkt og hjartsláttur.

Hvolpar éta stundum ekkert fyrsta daginn/dagana á nýju heimili. Ráðlagt er að heimsækja hvolpinn áður en hann flytur til þín og fá hann í stuttar heimsóknir áður en hann flytur alveg inn, það hjálpar honum að aðlaga sig að fjölskyldunni og nýja heimilinu.

 

Að húsvenja hvolpinn

Það veldur mörgum áhyggjum með fyrsta hvolp, þegar gera á hann húshreinan. Hve langan tíma það tekur fer eftir hvernig þú býrð, árstíð og þinni eigin samkvæmni. Þú mátt ekki skamma hvolp þó hann hafi gert þarfir sínar inni nema að þú náir honum leið og það gerist, segðu ,,Nei” við hann í ákveðnum tón og farðu með hann strax út, bíddu þangað til hann klárar og hrósaðu honum þá vel fyrir.

Ef hvolpurinn laumast í annað herbergi til að pissa þarftu að takmarka frelsi hans, þar til að vandinn er leystur. Því lengur sem þú lætur slíka hegðun viðgangast, því erfiðara verður að breyta henni. Nema að þú náir hvolpinum um leið, gerir það ekkert gott að draga hann að slysstaðnum og reyna að refsa honum eða ýta trýninu á honum í þvagið. Það gerir aðeins verra, því þá skilur hann ekki hvað hann gerði rangt.

Farðu með hvolpinn út þegar hann vaknar, þegar hann er búinn að borða, og eftir ákafan leik. Notaðu skipun t.d ,,út að pissa? eða ,,pissa,? hrósaðu honum þegar hann gerir þarfir sínar úti. Þegar hvolpurinn eldist reyndu þá að fara með hann út á reglulegum tíma.

Ef það fara aftur að gerast slys inni, þá verðurðu að bakka og byrja rólega aftur, og fara rólega í sakirnar. Ekki rugla saman þegar hundurinn merkir inni og þegar slys gerast, því hann merkir vísvitandi. Slík hegðun orsakast hjá hundum sem gætu verið að reyna að hækka sig í virðingarstiganum innan heimili síns, merkingar hunds eru til að eigna sér svæði.

Ef slys gerast kemur lykt af þeim stað sem hvolpurinn finnur og hann sækir í að gera þarfir sínar á staðinn aftur, gott er þá að þrífa blettinn með edik eða hreinsiefni, til að ná lyktinni alveg burt.

Til er önnur aðferð við að húsvenja hvolpa sem kallast dagblaða aðferðin. Legðu dagblöð á gólfið, hvettu hvolpinn til að gera þarfir sínar á blöðin. Loks ætti hvolpurinn að fara að sækja í að gera þarfir sínar þar. Leyfðu blöðunum sem hann gerir þarfir sínar á að liggja, hann finnur þá lyktina og sækir í að gera á sama stað. Fækkaðu blöðunum jafnt og þétt þangað til að eitt blað er eftir. Færðu seinasta blaðið út í garð og hleyptu hvolpinum reglulega út að pissa á blaðið, hann fer síðan að biðja um að fara út að pissa á blaðið, seinna fjarlægirðu það alveg, og hrósar vel þegar hann gerir úti.

Einvera

Það á aldrei að skilja lítinn hvolp eftir einan. Smám saman getur þú vanið hann á að vera einan stutta stund í senn. Fullorðin og vel agaður hundur ætti að geta verið einn u.þ.b. 4-5 klukkustundir á dag, hámark 8 klst. Helst ætti að tvískipta þeim tíma. Betra er að taka að sér hvolp, þegar þú hefur nægan tíma til að sinna hinum, t.d í sumarfríinu. Áður en skilið er ungan hund eftir einan, farðu með hann í göngutúr eða eyddu svolitlum tíma í að leika við hann. Ekki hafa neitt á glámbekk sem hundurinn getur komist í og nagað eða étið á meðan hann er einn heima. Lokaðu baðherbergis- og þvottahúsdyrum. Einnig er gott ráð að hafa hvolpinn í búri eða í hvolpagrind á meðan hann er einn. Gott ráð er að kveikja á útvarpi svo að hundurinn heyrir mannsraddir. Skildu eftir vatn og nagdót.

Hleypið hundinum ávallt út að gera þarfir sínar, áður en hann er skilinn eftir.

Umhverfisþjálfun

Umhverfisþjálfun hvolpsins byrjar innan um móður og systkini og heldur áfram þegar hvolpurinn er komin á nýtt heimili. Rannsóknir sýna að aðal tímabilið í umhverfisþjálfun hvolps við mann er þegar hann er frá 6- 8 vikna gamall. Þetta er sá tími sem móðirin venur hvolpana sína yfirleitt af spena. 8. vikna er einnig yfirleitt sá tími sem hvolpurinn fer á framtíðar heimili sitt. Hann er tilbúin að læra og umhverfisþjálfun (umgengni við aðra) ætti að byrja strax.
Veittu hvolpinum mikla athygli og ástuð. Gældu við hann og nefndu nafnið hans. Kynntu hann fyrir nágrönnunum og öðru fólki s.s. póstberanum og öðrum sem koma reglulega heim til þín. Kenndu börnum hvernig á að halda á honum og gæla við hann. Að leyfa hvolpinum að umgangast aðra hunda er mikilvægt. Passa skaltu upp á að hundarnir sem hann hittir séu ekki árásargjarnir gagnvart öðrum hundum, passa skaltu einnig að hann sé búin að fá allar sprauturnar áður en hann hittir aðra hunda.
Þegar hvolpurinn rannsakar nýja heimili sitt getur hann óviljandi eyðilagt hluti með því að naga þá. Þetta er hluti af könnun hans. Ef að hvolpurinn eyðileggur eitthvað ekki refsa honum eða tala reiðilega til hans. Ef þú stendur hann af verki skaltu segja “Nei” í ákveðnum tón. Það eina sem hvolpurinn lærir af hörðum og ótímabærum skömmum og refsingum er að hræðast þig og verða óöruggur.

Þegar þú þjálfar og umhverfisvenur hvolpinn þinn mundu þá að flokks eðli hvers hunds verður að vera stjórnað. Hvolpurinn mun prufa þig og aðra fjölskyldumeðlimi með stjórnsemi eins og flokksforingi hópsins. Allir fjölskyldumeðlimir ættu að vinna saman í þessu. Til að hjálpa hvolpinum að skilja að hann verður að hlýða reglum hússins, vertu samkvæmur sjálfum þér í áminningum og hrósi. Augnsamband og ákveðið “Nei” hindrar yfirleitt óæskilega athafnarsemi.

Þegar þú gefur hvolpinum þínum að borða skaltu gera það að gleðistund, hrósaðu honum þegar þú setur dallinn á gólfið. Fóðrun getur líka aðstoðað við þjálfun hvolpsins. Þegar þú setur diskinn á gólfið gefðu þá skipunina “gjörðu svo vel” nefndu síðan nafnið á hundinum. Þetta kennir honum að hlýða skipunum og einnig að bregðast við nafninu sínu.

Ekki vorkenna hvolpinum. Ekki taka hann upp eða segja ,,æjæj, auminginn, þetta er svo agalegt,” þegar hann verður hræddur t.d. við eitthvað nýtt (nema að það geti skaðað hann). Þá heldur hann að þetta sé svo hræðilegt að þú verðir að passa hann, og hann leitar þá alltaf í fangið á þér og verður óöruggari. Hvettu hvolpinn frekar svo hann verði sjálfstæður. Ekki alltaf vera með hvolpinn í fanginu, hann á að fá að vera hann sjálfur og rannsaka og kynnast hlutunum sjálfur.

Mundu þessi þrjú forgangsorð, einnig við áframhaldandi þjálfun: Þolinmæði, stöðugleiki og hrós.

  • HRFÍ
  • Papillon- og Phalénedeild HRFÍ