Texti: Brynja Tomer

Rauði kross Íslands hefur síðustu tíu ár lagt áherslu á verkefni sem nefnt er Heimsóknavinir og frá árinu 2006 hafa hundar tekið þátt í verkefninu. Eru sjálfboðaliðar með hunda kallaðir Hundavinir og hefur þeim farið jafnt og þétt fjölgandi bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni.

Grundvallarhugmyndin er sú að sjálfboðaliði (heimsóknarvinur) heimsæki gestgjafa sinn reglulega, til dæmis einu sinni í viku eða á tveggja vikna fresti. Heimsóknarvinir fara til dæmis á hjúkrunarheimili, sambýli, einkaheimili og jafnvel í fangelsi. Markmiðið er að mæta þörfum gestgjafa og stuðla að tilbreytingu og/eða hvatningu. Sömu grundvallarhugmyndir gilda þegar hundar fara í heimsóknir.

Frá árinu 2006 hafa hundar farið í reglubundnar heimsóknir með eigendum sínum á sömu forsendum og aðrir heimsóknarvinir Rauða kross Íslands. Forsvarsmenn stofnana og hjúkrunardeilda geta óskað eftir því að hundur komi í heimsókn og einnig geta einstaklingar óskað eftir því að fá hund í heimsókn.

Áður en sjálfboðaliðar fara í heimsóknir sækja þeir sérstakt námskeið hjá Rauða krossi Íslands og eru þeir bundnir þagnarskyldu. Í verkefninu Hundavinir er hundurinn í aðalhlutverki, en ekki eigandinn eins og í hefðbundum verkefnum meðal heimsóknarvina.

Víða í heiminum taka hundar markvissan þátt í þjálfun og endurhæfingu sjúklinga og fatlaðra, en enn sem komið er er slíkt ekki í boði hér á landi. Sjálfsagt verða hundar hluti af margvíslegri endurhæfingu og þjálfun í framtíðinni, en eins og málum er nú háttað, snýst verkefnið eingöngu um reglubundnar heimsóknir þar sem gestgjafi fær að njóta samvista við hundinn.

Nokkur undirbúningur liggur að baki hverrar heimsóknar. Eigendur hundanna þurfa að byrja á því að fara á námskeið fyrir heimsóknarvini hjá Rauða krossi Íslands. Í framhaldi af því láta þeir skoða hundinn til að ganga úr skugga um að hann henti í verkefnið. Standist hundurinn matið þarf eigandi að sitja fyrirlestur sem er sérsniðið að hundaheimsóknum.

Reglugerðir og samþykktir um hundahald kveða á um að bannað sé að fara með hunda inn í opinberar stofnanir, svo sótt er um sérstaka undanþágu fyrir hvern einasta hund á vegum Rauða krossins. Hundar af öllum stærðum og gerðum fara í heimsóknir, bæði ættbókarfærðir og blendingar, en miðað er við að þeir séu að minnsta kosti tveggja ára gamlir.

Áhersla er lögð á að velja saman hund og gestgjafa, því það getur farið eftir geðslagi hundsins og persónuleika hvort betra er að hann fari í heimsóknir á einn stað en annan. Sumum hundum hentar til dæmis betur að heimsækja einstakling, meðan aðrir njóta sín best í fjölmenni.

Um þessar mundir eru milli 30 og 40 hundar í reglubundnum heimsóknum á vegum Rauða krossins. Flestir eru á höfuðborgarsvæðinu, en nokkrir á landsbyggðinni, einkum á Austfjörðum og Norðurlandi. Rauða kross deildir eru starfræktar um allt land og eru Hundavinir hluti af starfsemi þeirra. Þeir sem vilja verða heimsóknarvinir, geta haft samband við þá deild sem starfandi er í viðkomandi sveitarfélagi og óskað eftir því að verða sjálfboðaliði. Þeir sem óska eftir frekari upplýsingum um verkefnið geta haft samband við Sólborgu Öldu Pétursdóttu, sem er verkefnisstjóri á landsskrifstofu Rauða Kross Íslands, í s. 570-4000 eða með tölvupósti: solborg@redcross.is.

 

 

  • HRFÍ
  • Papillon- og Phalénedeild HRFÍ